Jón Hólm Stefánsson



Ágæti kjósandi!

Laugardaginn 6. febrúar n.k. fer fram prófkjör sjálfstæðismanna til röðunar á lista fyrir alþingiskosningar á komandi vori. Fyrir liggur, að Þorsteinn Pálsson, forustumaður sjálfstæðismanna á Suðurlandi til margra ára, hverfi af vettvangi. Ný forusta verður því kosin í þessu prófkjöri. Því er eðlilegt, og raunar mikilvægt, að kjósendur Sjálfstæðisflokksins staldri við og hugleiði nýskipan forustusveitarinnar.

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í þessu prófkjöri, og óska eindregið eftir stuðningi í annað sæti listans. Ég hef mikla reynslu af félagsmálum og forustuhlutverki á þeim vettvangi. Sem héraðsráðunautur í rúman hálfan annan áratug, hef ég öðlast mikla reynslu samhliða þekkingu á högum og viðhorfum þeirra sem landbúnað stunda.

Á því svæði, sem ég starfaði sem ráðunautur, þ.e. á Vestfjörðum og í Dalasýslu, var einnig mikil umræða um stöðu annarra atvinnugreina s.s. sjávarútvegs og iðnaðar í tengslum við almenna stöðu þessara byggðarlaga, og því þekki ég atvinnulífið vel. Hér á Suðurlandi hef ég búið síðan árið 1983. Á þeim tíma hef ég kynnst Sunnlenskum byggðum og möguleikum þeirra.

Það er von mín, kjósandi góður, að þú skoðir vel þá kosti, sem í boði eru í þessu prófkjöri, og að niðurstaða þín verði sú að velja mig í annað sæti listans. Ég mun ekki bregðast því trausti.

Jón Hólm Stefánsson.