Jón Hólm Stefánsson - Stefnumál

Landbúnaðarmál.

Undirlendi Suðurlands er stærsta og samfelldasta landbúnaðarsvæði landsins og í nálægð stærsta markaðssvæðisins. Möguleikar á öllum sviðum landbúnaðar eru miklir og framtíðin ætti að vera björt, ef rétt er að málum staðið. Sunnlenskur landbúnaður á að geta staðist verðsamanburð við innfluttar landbúnaðarvörur, og hefur yfirburði í gæðum.

Frumskilyrði þessa er þó það, að afkoma þeirra, sem landbúnað stunda, sé viðunandi, miðað við nútíma kröfur fólks. Annars blómgast ekki það fjölbreytta líf, sem lifað er í sveitum og mörgum þykir eftirsóknarvert. Um þetta fjöregg þarf að standa vörð og efla svo sem kostur er.

Staða úrvinnslugreina Sunnlensks landbúnaðar er að mörgu leyti sterk og á að skapa bændum tekjumöguleika.

Góð staða bænda og landbúnaðar almennt skapar mörg störf og umsvif í sveitum og þéttbýli, bæði í ýmiss konar þjónustu og úrvinnslu. Það má hvergi slaka á, heldur blása til sóknar.


Byggðamál.

Ýmsar aðgerðir í byggðarmálum á undanförnum árum hafa miðast við að auka atvinnu. Hefur víða tekist vel til í þeim efnum, og er sú stefna góðra gjalda verð. Ég hef þó lengi haft þá skoðun, að aðrir þættir ráði meiru um þá ákvörðun fólks að flytjast burt af landsbyggðinni, og byggi ég þá skoðun á kynnum mínum af dreifðum byggðum.

Þau mál, sem ég tel að ráði þarna mestu, eru mennta- og menningarmál ýmiss konar. Fólk velur sér búsetu í æ ríkari mæli eftir því, hvernig staðið er að þessum málum. Metnaðarfull skólastefna sveitarfélaga og ýmsir fjarkennslumöguleikar eru grundvöllur þess að treysta byggð - og halda fólkinu heima. Einnig og samfara gott lista- og menningarlíf með góðri aðsöðu til þess að stunda það og njóta þess.

Að þessu þarf ötullega að vinna.


Samgöngumál.

Mjög brýnt er að auka stórlega vegabætur í kjördæminu. Allt of víða eru vegir í slíku ástandi, að úrbætur þola litla bið.

Suðurstrandarvegur, sem að mínu mati hlýtur að vera forsenda fyrir stækkun kjördæmisins til Reykjaness, er afar mikilvæg samgöngubót. Með þeim vegi skapast margvíslegir möguleikar m.a. með tengingu útgerðarstaða og í ferðaþjónustu.

Nú er verið að rannsaka alla þætti á hugsanlegri vegtengingu milli Vestmannaeyja og lands. Reynist slík framkvæmd möguleg, yrði þar um að ræða stórkostlega lyftistöng fyrir allt athafna- og mannlíf á Vestmannaeyjum og raunar Suðurland allt á margvíslegan hátt.

Gott samgöngukerfi er nútímakrafa fólks og fyrirtækja til eðlilegra samskipta.


Orkumál.

Leggja þarf mikla áherslu á að virkja hina miklu jarðgufu, sem finnst á Suðurlandi, til raforkuframleiðslu.

Nýta þarf samkeppnismöguleika, sem skapast hafa í orkuframleiðslu, til hagsbóta fyrir Sunnlensk fyrirtæki og heimili.


Umhverfismál.

Ganga þarf þannig um náttúruna, að ofgera í engu því sem hún veitir, hvort heldur er til nytja eða augnyndis.

Leggja þarf mikla áherslu á að nýta hin góðu skilyrði til skógræktar, sem víða eru á Suðurlandi, til hagsbóta fyrir umhverfið og þá, sem skógræktina stunda.

Standa þarf vörð um þann mikla árangur, sem náðst hefur í uppgræðslu lands og endurheimt landgæða. Skapa þarf skilyrði til stærri átaka á þessu sviði.